top of page

ADHD greining fyrir fullorðna

Værð býður upp á ADHD greiningar í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu. 

ADHD greining
Búið er að loka tímabundið fyrir skráningu á biðlista fyrir ADHD greiningar en EKKI fyrir ráðgjöf/meðferð hjá sálfræðingi vegna ADHD einkenna.

Greining á ADHD er mjög vandasöm. Þess vegna sinna eingöngu löggildir sálfræðingar með reynslu og þekkingu á ADHD og mismunagreiningum slíkum viðtölum hjá Værð. Ingibjörg Erla Jónsdóttir hefur yfirumsjón með ADHD greiningum hjá Værð en hún starfar einnig í Geðheilsuteymi HH - ADHD fullorðinna hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins meðfram starfi sínu hjá Værð.

Skimun

ADHD greiningarferlið hjá fullorðnum byrjar á skimun á einkennum ADHD. Skjólstæðingur byrjar á því að koma í fjarviðtal þar sem farið er yfir þroskasögu og lagðir eru fyrir spurningalistar um ADHD einkenni. Fengnar eru upplýsingar frá nánum aðstandanda/aðstandendum. Farið er yfir niðurstöður skimunar og athugað hvort ástæða sé til að fara í frekara greiningarferli. 

Greining

Sálfræðiviðtöl eru tekin við skjólstæðing, þar er aflað upplýsinga um einkenni í bernsku og á fullorðinsárum og þær skerðingar sem einkennin hafa á daglegt líf. Diva-5 greiningarviðtalið er lagt fyrir til að greina ADHD einkenni (Kooij et al., 2019). Í viðtali er einnig farið yfir einkenni annarra geðraskana sem algengar eru hjá fullorðnum. Farið verður yfir MINI geðgreiningarviðtalið (Sheehan et al., 1998) og/eða sambærileg stöðluð greiningarviðtöl ef þörf þykir. Meta þarf sérstaklega hvenær einkenni geðraskana og annara taugaþroskaraskana sem geta valdið skertri einbeitingu komu fyrst fram. Sálfræðingur mun skila niðurstöðum greiningar í ítarlegri greinargerð til skjólstæðings. Niðurstaða byggist á öllum þeim gögnum sem aflað hefur verið. 


Værð er ekki í samstarfi við geðlækni. Hafi fólk áhuga á að kanna möguleika á lyfjameðferð í kjölfarið hvetjum við fólk til að vinna sem fyrst að því að komast að hjá geðlækni.
 

Stuðst er við klínískar leiðbeiningar Landlæknis við greiningar hjá Værð.
 

Kostnaður

Í upphafi er tekið skimunarviðtal þar sem farið er yfir hvort tilefni sé til að fara í fulla greiningu. Skimunarviðtalið kostar kr. 37.000. Ef þörf er á að halda áfram ferlinu bætist við kostnaður upp á kr. 109.000. Flest stéttarfélög niðurgreiða þessa þjónustu.

Sækja um þjónustuna
Það er því miður biðlisti í þjónustuna eins og er. Hægt er að sækja um þjónustuna í gegnum Karaconnect með því að smella á "Bóka ADHD viðtal hér." Þú færist þá sjálfkrafa yfir á síðu Karaconnect þar sem þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum (ýtir á Island.is). Þar fyllir þú inn grunnupplýsingar, kreditkortaupplýsingar (borgun fer eingöngu fram eftir lok viðtals) og óskar eftir því að komast á biðlista með því að skilja eftir athugasemdina "óska eftir ADHD greiningu." Í framhaldinu mun sálfræðingur hafa samband við þig í gegnum tölvupóst til að bjóða þér viðtal. Því er mikilvægt að fylgjast vel með tölvupóstinum sínum.

Ekki hika við að hafa samband ef þörf er á nánari upplýsingum eða aðstoð, vaerd@vaerd.is.
bottom of page