ADHD greining fyrir fullorðna
Værð býður upp á ADHD greiningar í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu.

Greining á ADHD er mjög vandasöm. Þess vegna sinna eingöngu löggildir sálfræðingar með reynslu og þekkingu á ADHD og mismunagreiningum slíkum greiningum hjá Værð. Værð fer eftir klínískum leiðbeiningum Landlæknis við greiningar á ADHD. Ingibjörg Erla Jónsdóttir hefur yfirumsjón með ADHD greiningum hjá Værð en hún starfar einnig í Geðheilsuteymi HH - ADHD fullorðinna hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins meðfram starfi sínu hjá Værð.
Skimun
Greining á ADHD hjá fullorðnum byrjar á skimun á einkennum ADHD. Skjólstæðingur byrjar á því að koma í fjarviðtal þar sem farið er yfir þroskasögu og lagðir eru fyrir spurningalistar um ADHD einkenni. Fengnar eru upplýsingar frá nánum aðstandanda/aðstandendum. Farið er yfir niðurstöður skimunar og athugað hvort ástæða sé til að fara í frekara greiningarferli.
Greining
ADHD greiningarviðtöl eru tekin við skjólstæðing, þar er aflað upplýsinga um einkenni í bernsku og á fullorðinsárum og þær skerðingar sem einkennin hafa á daglegt líf. Diva-5 greiningarviðtalið er lagt fyrir til að greina ADHD einkenni (Kooij et al., 2019). Í geðgreiningarviðtali er einnig farið yfir einkenni annarra geðraskana sem algengar eru hjá fullorðnum. Farið verður yfir MINI geðgreiningarviðtalið (Sheehan et al., 1998) og/eða sambærileg stöðluð greiningarviðtöl ef þörf þykir. Meta þarf sérstaklega hvenær einkenni geðraskana og annara taugaþroskaraskana sem geta valdið skertri einbeitingu komu fyrst fram. Sálfræðingur mun skila niðurstöðum greiningar í ítarlegri greinargerð til skjólstæðings. Niðurstaða greiningar byggist á öllum þeim gögnum sem aflað hefur verið.
Hafi fólk áhuga á að kanna möguleika á lyfjameðferð í kjölfar greiningar hvetjum við fólk til að vinna sem fyrst að því að komast að hjá geðlækni eða hafa samband við sinn heimilislækni eftir að greiningarferli líkur og óska eftir tilvísun í Geðheilsuteymi HH - ADHD fullorðinna svo að teymið þar geti metið greinargerðina. Mikilvægt er að láta greinargerð fylgja með í tilvísun til ADHD geðheilsuteymis Heilsugæslunnar.
Stuðst er við klínískar leiðbeiningar Landlæknis við greiningar hjá Værð.
Kostnaður
Í upphafi er tekið skimunarviðtal þar sem farið er yfir hvort tilefni sé til að fara í fulla greiningu. Skimunarviðtalið kostar kr. 34.000. Ef þörf er á fullri greiningu bætist við kostnaður upp á kr. 112.000. Flest stéttarfélög niðurgreiða þessa þjónustu.